Í lok meðgöngunnar þarf að huga að því hvaða öryggisbúnað á að nota fyrir barnið þegar farið er með það í bíl.  Mikilvægt er að búið sé að ganga frá þessum málum áður en barnið kemur í heiminn og kynna sér rétta notkun á öryggisbúnaðinum sem valinn er til að barnið sé aldrei flutt óvarið í bílnum.

 Höfuð ungbarna er hlutfallslega stórt og þungt miðað við líkamann og því mikil hætta á háls- og höfuðáverkum í árekstri. Til að draga úr hættu á þessum áverkum er afar mikilvægt að barnið snúi með bakið í akstursstefnu eins lengi og hægt er.  Alltof algengt er að foreldrar vilji hætta að nota ungbarnabílstólinn of snemma, þ.e. áður en barnið nær þeirri þyngd sem stóllinn er gefinn upp fyrir. Oft er bent á að fætur barnsins séu komnir upp á bak bílsætis en það hefur lítil sem engin áhrif á öryggi barnsins í bílnum.  Rétt er að miða við stöðu höfuðsins í stólnum, þ.e. ef hnakki barnsins er farin af fara upp fyrir stólbakið þá er  ástæða til að skipta um stól þar sem barnið er orðið of langt í stólinn þrátt fyrir að hafa ekki náð þeirri þyngd sem stóllinn er gefinn upp fyrir.

Börn eru að jafnaði best varin í aftursæti.  Ungbarnabílstólar mega þó vera í framsæti svo framarlega sem þar er ekki virkur öryggispúði. Sjá myndband sem sýnir hvað gerist ef ungbarnabílstóll er fyrir framan loftpúða. Í þeim bílum sem hafa virkan öryggispúða farþegamegin í framsæti verður barnið alltaf að vera í aftursætinu. Ef ungbarnabílstóll er í framsæti þarf sætið að vera a.m.k. 20 sm frá mælaborðinu og það sama á við um fjarlægt að baki framsætis sé stóllinn í aftursætinu.

 Er kaupa á stól

Mörgum forráðamönnum finnst erfitt að velja öryggisbúnað fyrir barnið sitt í bílinn. Spurningunni um hvaða öryggisbúnaður er bestur eða öruggastur er erfitt að svara. Allur öryggisbúnaður sem fluttur er til landsins og seldur er hérlendis verður að uppfylla lágmarkskröfur um öryggi. Þessi búnaður skal vera merktur Evrópustaðlinum ECE R44-03, eða bandaríska staðlinum FMVSS eða kanadíska staðlinum CMVSS en þeir tryggja að lámarkskröfur séu uppfylltar fyrir viðkomandi öryggisbúnað. Þegar kaupa á fyrsta stólinn er gott að hafa eftirfarandi þætti í huga:

Skoða hvort barnabílstóllinn sé merktur með ECE, FMVSS eða CMVSS.  Þessa merkingu er ekki alltaf hægt að finna á öryggisbúnaðinum sjálfum heldur einungis í upplýsingabæklingi sem fylgir stólnum.
Mikilvægt er að nota stóla merkta ECE í Evrópska bíla, FMVSS í bandaríska og CMVSS í kanadíska.

Að öryggisbúnaðurinn sé valinn í samræmi við þyngd og stærð barnsin. Algengt er að foreldrar velji ungbarnastólana sem jafnframt er hægt að nota sem burðarstól. Annað hvort eru þeir upp í 10 kg eða 13 kg. Gott er að velja frekar stól sem er upp í 13 kg sérstakleg ef fyrirhugað er að velja næsta stól á eftir sem er ekki bakvísandi eins og ungbarnabílstóllinn þar sem mikilvægt er að hafa börnin eins lengi og kostur er í bakvísandi stól.

Að máta öryggisbúnaðinn í bílinn þannig að það sé tryggt að hægt sé að festa hann tryggilega með beltum bílsins, því fastari því betra.  Ef nota á öryggisbúnaðinn í fleiri en einn bíl þarf hann einnig að henta í þá bíla.

Mikilvægt er að fara alltaf eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja með öryggisbúnaðinum um rétta festingu hans.

Ef einstaklingar hafa hug á að gefa barni öryggisbúnað í bíl að gjöf er bent á að velja hann í samráði við foreldra.  Margir hafa farið flatt á að sá öryggisbúnaður sem keyptur hefur verið hentar hvorki barni né bíl og ekki hefur verið hægt að fá hann endurgreiddan.

Ef öryggisbúnaður er fenginn að láni þarf að huga að

Sömu atriði þarf að huga að þegar stóll er fenginn að láni og eru þegar stóllinn er keyptur (sjá upptalningu að ofan). Að viðbættu þeim atriðum þarf að huga að eftirtölfum þáttum þegar stóll er fenginn að láni eða keyptur notaður:

Mikilvægt er að festa öryggisbúnaðinn í bílinn samkvæmt þeim leiðbeiningum sem fylgdu honum í upphafi.  Hafi þær týnst er möguleiki á að umboðið geti aðstoðað.  Mikilvægt er að öryggisbúnaðurinn sé ekki festur í bílinn á annan hátt en leiðbeiningar segja til um.  Ekki skal eingöngu treysta leiðbeiningum fyrri eigenda.

Að skoða hversu gamall stóllinn er. Í leiðbeiningum um barnabílstólinn kemur fram hversu lengi framleiðandinn ábyrgist notkun á búnaðinum. Yfirleitt er það um 5 til 8 ár og ekki ráðlagt að nota stólinn lengur þó vissulega hafi þættir eins og notkun stóls á tímabilinu áhrif.

Að öryggisbúnaðurinn hafi aldrei verið í bíl sem lent hefur í hörðum árekstri með barni í, þar sem slíkur búnaður er ónýtur.

Að beltin séu heil og ekki farin að trosna. Ef belti stólsins eru snúin þarf að laga það.

Að spennan virki vel.  Hún má ekki vera stíf eða opnast auðveldlega.  Stundum er beltisspennan kviklæst og erfitt að loka henni.  Orsökin er þá stundum að óhreinindi gera hana óvirka.  Þá getur verið nóg að þvo hana upp úr volgu sápuvatni og skola vel á eftir.  Ef þetta virkar ekki er spennan hugsanlega ónýt og þar af leiðandi stóllinn líka.

Burðarrúm eru ekki æskilegur búnaður fyrir börn í bílum þar sem þau veita ekki næga vernd.  Þessi búnaður hefur ekki verið prófaður nægjanlega með tilliti til öryggis í árekstri. Margir telja sig verða að nota burðarrúm í lengri ferðum en slíkt er ekki nauðsynlegt. Í lengri ferðum er nóg að stoppa af og til og taka barnið úr stólnum til að hvíla það. Almennt er barn öruggast ef það situr eins mikið upprétt og hægt er miðað við aldur þess. Bílkörfur eru til fyrir börn sem þurfa einhverra hluta vegna að ferðast útafliggjandi.  Getur verið vegna veikinda eða fötlunar. Bílkörfu er hægt að festa í bílinn með þriggjafestu öryggisbeltum hans. Barnið er fest í bílkörfuna með fimmfestu öryggisbelti sem er innbyggt í hana. Þegar bílkarfa er notuð á höfuð barnsins að snúa inn að miðju bílsins. Bílkörfur eiga alltaf að vera í aftursætum bíla. Lausir munir í bíl geta slasað þá sem eru í bílnum þegar þeir kastast til í slysi. Þunga hluti á því ekki að geyma inni í bílnum, sérstaklega ekki í afturglugga og ef um skutbíl er að ræða skal hafa hlíf, gardínu eða net yfir farangursrými.

Efni tekið af vef Landsbjargar

Til baka á