Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar leggja á ungabarn til svefns til að tryggja sem best öryggi barnsins.
Svefnstelling
Ungabörn á að leggja til svefns á bakið. Þegar ungabörn sofa á bakinu er minnsta hættan á vöggudauða. Ungabörn sem sofa á hliðinni eru ekki eins örugg og þau sem sofa á bakinu en það er þó mun öruggara fyrir þau en að sofa á maganum. Ef ungabörn eru látin sofa á hliðinni þarf að tryggja að þau geti ekki rúllað yfir á magann. Þó að barn liggi á bakinu getur það auðveldlega losnað við ælu því það getur auðveldlega snúið höfðinu til hliðar. Samtök barnalækna í Ameríku (AAP) hafa frá árinu 1992 mælt með því að ungabörn séu lögð til svefns á bakið til að minnka líkur á vöggudauða. Síðan þá hefur tíðni vöggudauða lækkað um 40% þar í landi. Samkvæmt könnun sem AAP gerði voru yfir 70% ungabarna lögð til svefns á magann árið 1992 áður en almennt var byrjað að ráðleggja fólki að leggja börn til svefns á bakið en árið 2000 hafði sú tala lækkað í 20% þannig að lækkun vöggudauða má því rekja til breyttra svefnstellinga ungabarna.
Rúm og undirlag
-
Barnarúm sem uppfyllir öryggiskröfur er öruggari svefnstaður en hjónarúm foreldra. Gott barnarúm sem uppfyllir öryggiskröfur er stöðugt, hefur ekki meira 6 sm bil á milli rimla og hæð rimla frá rúmbotni er a.m.k. 60 sm þegar botninn er í lægstu stöðu. Hjónarúm uppfylla ekki öryggiskröfur sem gerðar eru til barnarúma og þar geta leynst ýmsar hættur s.s. hætta á að festast milli dýnu og rúmbotns og hætta á að börnin geti meitt sig á rúmgöflum, fótagöflum eða hliðargöflum.
-
Ungabörn ættu ekki að sofa í vatnsrúmum, ofan á púðum, þykkum teppum, gæruskinnum, grjónapúðum eða öðru mjög mjúku undirlagi.
-
Mikilvægt er að strekkja lakið vel undir dýnuna í rúminu til að minnka hættu á að barnið vefji sig inn í lakið.
Hlutir í nánasta umhverfi
Púðar, teppi, gæruskinn, bangsar eða mjúk leikföng ættu ekki að vera í rúmi ungabarnsins meðan það sefur.
Ábreiða
Búið þannig um barnið í barnarúmi eða vöggu að ekki sé hætta á að það geti dregið yfir sig sæng eða teppi sem breitt hefur verið yfir það. Þetta er t.d. hægt að gera með því að leggja barnið þannig í rúmið að fætur þess séu upp við fótagaflinn því þá er ekki hætta á að barnið komist undir sængina eða teppið þó það færist til í rúminu. Einnig er hægt að festa niður endann á sænginni eða teppinu sem er til fóta, undir dýnuna.
Upp í hjá foreldrum
Ef foreldrar kjósa að láta ungabarn sofa uppi í rúmi hjá sér þarf að gæta vel að öryggi barnsins. Hafið í huga sömu þætti og þegar ungabarn er lagt til svefns í eigin rúmi þ.e. svefnstellingu, undirlag, strekkt lak og hluti í nánasta umhverfi.
-
Öruggast er að flytja dýnur á gólfið til koma í veg fyrir fall úr rúminu. Ef það er ekki gert þarf að huga að því að fjarlægja höfuðgafl, fótagafl og hliðargafla sem mögulegt er að ungabörnin geti meitt sig á.
-
Einn af kostum þess að hafa ungabarn upp í rúmi hjá móður er að það auðveldar brjóstagjöf að nóttu. Ef barni er gefið brjóst í hliðarstellingu, gætið þess þá að leggja barnið til svefns á bakið eftir að brjóstagjöf er lokið.
-
Algengast er að börn sem eru á brjósti sofi uppi í rúmi hjá mæðrum sínum en það getur auðveldað mjög brjóstagjöf. Samkvæmt Dr. William Sears sem er höfundur bókar um ungbarnadauða(SIDS: A Parent’s Guide to Understanding and Preventing Sudden Infant Death Syndrome) er lægra magn af hormóninu prólaktín í blóði mæðra sem reykja. Prólaktín stjórnar mjólkurframleiðslu en hefur einnig áhrif á atferli mæðra þannig að meðvitund þeirra fyrir þörfum barnsins getur verið minni. Þetta er áhyggjuefni þar sem þessi börn eru einnig útsett fyrir áhrifum óbeinna reykinga auk þess sem þau fá eitthvað af nikótíni með mjólkinni.
-
Reykingar foreldra auka líkur á vöggudauða og því ætti aldrei að reykja á heimili ungabarns. Foreldrar sem reykja ættu ekki að láta ungabarn sofa upp í hjá sér. Útöndun frá fólki sem reykir getur verið skaðleg börnum og hægt að líkja að vissu leyti við óbeinar reykingar. Þannig að þegar börn sofa uppi í rúmi hjá foreldrum sem reykja geta þau andað að sér menguðu andrúmslofti.
-
Þar sem viss hætta er á að fullorðinn einstaklingur leggist ofan á ungabarn sem sefur í rúminu er í raun öruggast að það sé aðeins móðirin sem deilir rúmi með ungabarninu til að minnka þessa áhættu. Það er hins vegar ljóst að í mjög mörgum tilfellum sefur faðir barnsins einnig í sama rúmi en eldri systkini ættu t.d. aldrei að sofa í sama rúmi og ungabarnið. Það er í raun hvorki hægt að segja að það sé fullkomlega öruggt eða hættulegt að ungabarn sofi upp í hjá báðum foreldrum. Rannsóknir hafa sýnt fram á aukna hættu á vöggudauða ef móðir er þyngri en 80 kg. og deilir rúmi með ungabarni sínu. Rannsakendur telja að þetta megi skýra m.a. með því að aukin hætta sé á að móðir sem er þyngri en 80 kg. leggist ofan á ungabarnið í svefni.
-
Móðir ætti aldrei að deila rúmi með ungabarni sínu ef hún hefur neytt róandi lyfja, eiturlyfja eða áfengis.
Notkun snuðs á svefntíma
Nýjar rannsóknir benda til þess að notkun snuðs á svefntíma dragi úr líkum á vöggudauða. Nú er því mælt með notkun snuðs á svefntíma ungabarna, þó ekki fyrr en brjóstagjöf er komin vel á veg, enda er brjóstagjöfin einnig talin vera mikilvæg vörn gegn vöggudauða.
Heimildir
American of Pediatrics (2000). Changing concepts of sudden infant death syndrome: Implications for infant sleeping environment and sleep position. Pediatrics, 105 (3), bls. 650-656. Academy
Mesich, H.M. (2005). Mother-Infant Co Sleeping. MCN, 30 (1), bls. 30-37.
Efni fengið af vef Landsbjargar
Til baka á