Hestamennska er vinsælt áhugamál, ásamt því sem margir sem hafa atvinnu af henni. Íslenski hesturinn veitir okkur og erlendum gestum okkar ómælda ánægju, bæði til dægrardvalar og einnig til þess að njóta náttúru Íslands.
Áhættuþættir í hestamennsku eru margþættir og miklu skiptir að gæta fyllsta öryggis við ástundan hennar. Það eitt að fólk velji sér hest sem hæfir getu hver og eins, getur komið í veg fyrir slys.
Hestur og knapi eru ein heild og ef hestur er vel taminn ættu viðbrögð hans að vera nokkuð fyrirsjáanleg. Knapinn þarf að vita hvaða skilaboð hann og umhverfið gefur hestinum og vera vakandi yfir skilaboðum frá hestinum.
Fylgjast þarf vel með heilsu hestsins, svo sem bólgum undir hnakki eða sár í munni og raspa tennur reglulega og skaufaþvo, ef hætta er á hlandsteini, þannig má koma í veg fyrir atriði sem geta orsakað rokur, stungur og slys.
Eitt af grundvallaratriðum í öruggri umgengni við hesta er kunnátta og skilningur á eðli hestsins og hegðun. Notkun öryggisbúnaðar sem er hannaður til að koma í veg fyrir slys og ver knapann gegn meiðslum er einnig mikilvægur. Þetta á bæði við þá sem leggja stund á hestamennsku sem áhugamál og fagfólk. Eigendur hesta hafa oft eytt miklu fé í kaup á hestum, tamningu og þjálfun, og ættu síst að spara við sig í kaupum á öryggisbúnaði.
Hestar sem eiga til að berja frá sér, bíta eða eru á annan hátt varasamir í umgengi ber sérstakleg að merkja til þess að aðrir geti varað sig á þeim. Ef hestur er t.a.m. slægur er gott ráð er að hafa rauðann borða í taglinu á honum.
Öryggisbúnaður þarf að uppfylla CE öryggisstaðla og þar með grunnkröfur varðandi heilsu og öryggismál fyrir viðkomandi vöruflokk.
Reiðhjálmur er staðalbúnaður hestamannsins í reið og í umgengni við varasama hesta, hann veitir vörn við höfuðáverkum, en alvarlegir höfuðáverkar geta haft varanleg, skaðleg áhrif á heilsu fólks. Það er afar mikilvægt að börn séu með hjálm sem passar vel, er stillanlegur og þægilegur.
Hjálmur sem hefur lent í höggi er ekki lengur öruggur og þarf að taka úr notkun.
Öryggisvesti veita vörn gegn áverkum á baki og brjóstkassa. Vesti dregur úr áhrifum við högg með því að dreifa þrýstingum á stærra svæði. Það dregur úr hættu á að rif, viðbein, hryggjaliðir brotni við fall og einnig dregur það úr líkum á mænuskaða við fall af hestbaki.
Í hesthúsinu er gott að nota reiðskó með, grófum sóla sem rennur síður til á hesthúsgólfinu eða í hálku. Of grófur sóli getur þó á hestbaki orðið fastur í ístaði og er því betra að vera í skóm með fínni botni í reið. Best er að reiðskór séu með stáltá og góðum hæl þar sem hann kemur í veg fyrir að fóturinn renni í ístaðið og festist.
Öryggisístöð eru hönnuð til að koma í veg fyrir að knapi festist í ístaðinu falli hann af baki og dragist þannig á eftir hestinum.
Endurskinsmerki og ljós eru nauðsynleg til að aðrir vegfarendur sjái knapa og hest í ljósaskiptum eða myrkri. Mikilvægt er að bæði knapi og hestur séu með endurskinsmerki ef þeir skyldu verða viðskila hvor við annan. Til eru endurskinsmerki á fætur hesta, tagl, um háls og á reiðtygi. Knapar ættu að vera í endurskinsvesti, með endurskinsborða eða ljós sem hægt er að festa á kálfa eða ístöð. Erlendis fást ljós sem eru hvít að framan, en rautt ljós sem vísar aftur.
Reiðtygi, þurfa að henta bæði hestinum og knapanum. Hugið vel að ástandi reiðtygjanna, að leðrið sé mjúkt og sterkt og takið úr notkun það sem orðið er sprungið, þurrt og slitið. Gangið úr skugga um að reiðtygi passi og henti þeim hesti sem á að nota þau á. að þau séu stillt og notuð á réttan hátt.
Í umferðinni telst hesturinn til farartækja og hefur sama rétt til að fara um vegi eins og bílar. Knapar verða því að þekkja og virða almennar umferðarreglur. Nota skal þó reiðvegi þar sem að þeir eru fyrir hendi. Hestamenn mega ekki ríða eftir gangstéttum eða merktum göngustígum. Ef riðið er á vegi eða við hliðina á vegi er mikilvægt að vera sem sýnilegust, til dæmis með endurskinsmerkjum eða endurskinsvestum. Ef hestur verður órólegur, reynið þá að ná sambandi við bílstjórann og gefa honum merki um að hægja ferðina eða stoppa. Takið tillit til umferðarinnar og sýnið tillitsemi og kurteisi.
Efnið er fengi af vef Landsbjargar
Til baka á