Eitranir eru alltof algengar og geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem verður fyrir þeim. Geyma þarf eiturefni á öruggum stað þar sem börn ná ekki í þau, en eitranir eru algengastar í þeirra hópi. Ávallt skal geyma eiturefni í læstum hirslum og aldrei á að skipta um umbúðir sem eiturefni eru í.

 Komist barn eða fullorðinn í tæri við hættuleg efni, eitraðar plöntur eða lyf, hafið þá strax samband við Eitrunarmiðstöðina í síma 543-2222 eða 112 til að fá leiðbeiningar um hvað á að gera. Símaþjónustan er opin allan sólahringinn.

 Leiðbeiningar um fyrstu viðbrögð frá Landlæknisembættinu:

 Augu
Ef efni berast í augu er mikilvægt að skola þau burt sem fyrst.

Augnskol
Notið vatn og fáið einhvern til að hjálpa til ef hægt er. Mikilvægt er að halda auganu opnu, en tilhneiging er til að loka því þegar eitthvað hefur farið upp í það. Notið þægilega volgt vatn, fyllið hreint ílát, t.d. bolla, haldið auganu opnu og hallið höfðinu aftur og til hliðar og látið vatnið renna frá augnkrók þvert yfir augað. Haldið áfram í 15 mínútur.

Inntaka
Þynning er ráðlögð ef um er að ræða ertandi efni fyrir slímhúð í munni og hálsi, t.d. sápur, hreinsiefni og ýmis súr eða basísk efni. Meta skal þó hvert tilfelli fyrir sig. Ef alvarleg einkenni eins og slæmur verkur í vélinda eða maga eða öndunarerfiðleikar eru til staðar á strax að leita læknishjálpar. Í slíkum tilfellum er hætta á að efnið hafði brennt gat í vélinda eða maga og getur þá verið hættulegt að drekka eða borða. Ef þessi einkenni eru ekki til staðar, drekkið 1-2 glös af vatni eða mjólk.

Athugið!
Ef um er að ræða inntöku á lyfjum getur þynning orðið til hins verra. Rannsóknir hafa sýnt að þynning með vatni getur aukið styrk ýmissa lyfja í plasma og þannig aukið eituráhrif þeirra. Að drekka eða borða eftir lyfjainntöku getur flýtt ferð lyfsins gegnum meltingarveginn þannig að erfiðara verður að framkvæma magatæmingu.

Gæta skal þess að þröngva aldrei vökva ofan í fólk.

Uppköst
Uppköst eru aldrei ráðlögð í heimahúsi nema í sérstökum tilfellum (alltaf í samráði við eitrunarmiðstöð eða lækni). Ef uppköst eiga sér stað þarf að gæta að stöðu sjúklings, þannig að hann liggi til dæmis alls ekki á bakinu.

Innöndun
Komið sjúklingi í ferskt loft og losið um föt sem þrengja að.

Húð
Skola með miklu vatni og mildri sápu, fjarlægja föt.

 Eiturefnamerki

 Skaðlegar jurtir og tré

Landspítali-háskólasjúkrahús

Eitrunarmiðstöð LSH

  Efni fengið af vef Landsbjargar
Til baka á