Þegar heim er komið með barnið er að mörgu að huga til að tryggja öryggi þess.  Þó svo að barnið sé lítið og öllum finnist það ekki geta farið sér að voða er öruggast að temja sér rétt vinnubrögð strax í upphafi því aldrei er að vita hvenær barnið byrjar að snúa sér.  Ákveðnir þættir eru algengari en aðrir sem valda slysum hjá ungbörnum og vert er að hafa í huga. Rúm þurfa að vera stöðug og heilt.  Athuga þarf hvort botninn sé traustur, bil á milli rimla í rúminu má ekki vera meira en 6 cm og hæð frá botni á að vera a.m.k. 60 cm þegar rúmið er í lægstu stöðu. Vöggur eru óstöðugar og er ráðlagt að hætta að nota þær um leið og barnið fer að snúa sér.  Kenna þarf eldri systkinum og öðrum börnum að umgangast vögguna þar sem hætta er á að þau velti henni er þau toga í hana á hlið til að sjá ofan í hana. Rúm foreldra geta verið há og því þarf að passa vel uppá barn sem sett er á það en nokkuð algengt er að börn falli fram úr þeim.  Best er að venja börnin á að sofa alltaf í sínu rimla rúmi þar sem þau eru öruggust. Baðborð er mjög þægilegt að nota en passa verður vel uppá hættuna á því að barn detti ekki niður af því. Fall niður af borð  á gólfið er mikið fall fyrir ungbörn.  Mjög mikilvægt er því að halda alltaf við barnið þegar það er á baðborðinu.  Nauðsynlegt er að taka til allt sem þarf að nota eins og föt og bleyjur og ef þarf að sækja eitthvað verður alltaf að taka barnið með sér en ekki skilja það eftir þó aðeins sé farið eitt skref. Baðvatn má ekki vera heitara en 37-38°C. Húð ungbarna er mjög viðkvæm og þunn og þolir heitt vatn illa. Baðstóll getur verið ágætt að nota er sem stuðningstæki en aldrei má sleppa hendi af barni í honum þar sem hann er ekki öryggistæki heldur aðeins til að auka þægindin við að baða. Smáir hlutir sem eru minna en 4 cm eru varasamir fyrir börn þar sem þeir geta valdið köfnun.  Mörg leikföng eru þannig að þau eru með litlum hlutum á sér eins og augu bangsa o.fl. sem geta losnað af.  Fara þarf vel yfir að allt slíkt sé tryggilega fest.  CE merki á leikföngum er ekki neinn gæðastaðall heldur segir eingöngu til um að leikföngin standist ákveðnar lágmarkskröfur um gæði.Er börnin fara að hreyfa sig um fjölgar slysagildrum á heimilinu til muna og þarf þá að skoða heimilið með tilliti til þess.  Mjög margar öryggisvörur eru til sem hægt er að nota til að auka öryggi heimilins og er helst hægt að nálgast þær í barnaverslunum, apótekum og byggingavöruverslunum. Upplýsingar um helstu öryggisvörurnar er hægt að nálgast hér.

  Efnið er fengið af vef Landsbjargar

Til baka á