Eldvarnir

Reykskynjarar bjarga mannslífum
Manntjón og meiðsl verða oft í eldsvoða þegar fólk sefur. Það er því forgangsatriði í eldvörnum á heimilinu að tryggja að íbúar verði sem fyrst varir við eld og reyk í íbúðinni. Virkir reykskynjarar eru einföld og ódýr leið til þess. Samkvæmt byggingareglugerð skulu vera reykskynjarar á hverju heimili. Skynjarar sem nema hita, gas og kolsýring auka enn frekar á öryggi þar sem það á við.

Tegundir reykskynjara
Tvær gerðir reykskynjara henta á heimilum og það borgar sig að hafa skynjara af báðum gerðum.

Jónískir reykskynjarar bregðast skjótt við reyk og eru góðir alhliða reykskynjarar í flest rými á heimilum. Þeir eru hins vegar einnig næmir fyrir raka, hita og brælu frá matargerð og henta því ekki í þvottahús og eldhús.

Optískir reykskynjarar bregðast líka skjótt við reyk en eru ekki eins næmir fyrir öðrum breytingum. Þeir henta því vel til dæmis í eða við eldhús og þvottahús.

Unnt er að tengja marga reykskynjara saman. Það er æskilegt í stórum húsum því þá gera allir skynjarar viðvart um leið og einn fer í gang. Samtengdir skynjarar eru ýmist þráðlausir eða tengdir saman með vír. Einnig er hægt að vera með vaktað brunaviðvörunarkerfi.

Staðsetning
Setjið reykskynjara sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nemur 30 sm.

Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum. Þá á að minnsta kosti að setja upp framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Í langan gang skal setja skynjara við báða enda. Algengt er að sjónvörp og tölvur séu í barna- og unglingaherbergjum og skal þá setja reykskynjara í þau. Í alrými er gott að hafa bæði jónískan og optískan skynjara.

Sömu reglur um notkun og staðsetningu reykskynjara gilda fyrir orlofshús. Sérstaklega ber að huga að því að þeir sem sofa á svefnlofti fái viðvörun svo að þeir geti yfirgefið húsið ef eldur kemur upp.

Skynjari á að vera í bílskúr. Sé hann sambyggður íbúðarhúsi er best að tengja skynjarann þar við reykskynjara í íbúðinni. Sé bíll geymdur í bílskúr er hætt við að útblástursreykur geti sett reykskynjara af stað. Í slíkum tilvikum er rétt að nota hitaskynjara. Þeir eru settir í loft eins og reykskynjarar.

Viðhald og endurnýjun
Reykskynjara þarf að prófa að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Til dæmis 1. desember, um páska, þegar komið er úr sumarleyfi og þegar skólar hefjast á haustin. Styðjið fingri á prófunarhnappinn þar til viðvörunarmerki heyrist. Gott er að leyfa heimilisfólkinu að heyra hljóðið í skynjaranum.

Prófið reykskynjara alltaf þegar komið er í sumarhús, einkum ef það hefur staðið autt um hríð.

Ef stutt hljóðmerki heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútu fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna. Hana þarf að endurnýja árlega og er gott að gera það alltaf á sama tíma, til dæmis 1. desember. Nauðsynlegt er að prófa reykskynjarann þegar skipt hefur verið um rafhlöðu.

Líftími reykskynjara er áætlaður um það bil tíu ár. Gott er að skrá á bakhlið skynjarans hvaða ár hann var settur upp. Skynjarinn endist betur ef hann er ryksugaður að innan í hvert sinn sem skipt er um rafhlöðu.

Upplýsingar á íslensku eiga að fylgja þegar skynjarar eru keyptir. Kynnið ykkur þær. Sjálfsagt er að leita ráðgjafar hjá seljendum.

Flóttaleiðir og flóttaáætlun
Nauðsynlegt er að fjölskyldan geri áætlun um hvernig yfirgefa á heimilið ef eldur kemur upp. Slík áætlun getur ráðið úrslitum um hvort allir komast heilir út. Ef unnt er skal loka rýminu þar sem eldur logar. Það tefur útbreiðslu elds og reyks.

Best er að öll fjölskyldan taki þátt í að gera áætlunina og æfi hana síðan. Foreldrar og forráðamenn bera að sjálfsögðu ábyrgð á rýmingu íbúðarinnar og ber að forðast að ræða þannig við börn um eldvarnir að það skapi ótta. Brýnið þó fyrir ungum börnum að þau megi ekki fela sig inni í skáp eða undir rúmi. Mörg dæmi eru um að slökkviliðsmenn hafi átt erfitt með að bjarga börnum úr brennandi húsum vegna þessa.

Við gerð flóttaáætlunar þarf að hafa eftirfarandi í huga:
• Tvær greiðar leiðir eiga að vera út úr íbúðinni og húsinu. Komið fyrir neyðarstiga þar sem þörf krefur.
• Að allir viti að þeir eiga að fara út um leið og elds verður vart. Hringið á slökkvilið í 112 eins fljótt og auðið er.
• Ákveða þarf fyrirfram stað þar sem allir hittast þegar út er komið. Þannig má ganga úr skugga um hvort allir hafi skilað sér út.

Flóttaleiðir og rýming í fjölbýli
Slökkvilið gefur út fyrirmæli um rýmingu og ber að fylgja þeim. Þegar brennandi íbúð er yfirgefin út í stigagang er brýnt að loka dyrunum á eftir sér. Annars fyllist stigagangurinn af reyk og aðrir íbúar komast ekki út.

Flóttaleiðir í fjölbýli eru stigagangar og svalir. Aðgangur að svaladyrum á að vera greiður og auðvelt þarf að vera að opna þær. Flóttaleiðir eiga að vera opnanlegar innan frá án lykils. Notið stigaganga ekki sem geymslur.

Lyftur má aldrei nota í eldsvoða því þær geta stöðvast á þeirri hæð sem eldur logar og fyllst af reyk. Hver íbúð er sérstakt brunahólf. Ef reykur er í stigagangi er öruggara að halda sig inni í íbúðinni og láta vita af sér við glugga eða á svölum. Það má til dæmis gera með því að setja ljóst klæði út um glugga eða á svalir.

Slökkvibúnaður
Stundum er unnt að bregðast við og slökkva eld áður en hann magnast. Því eru slökkvitæki og eldvarnateppi nauðsynlegur búnaður á hverju heimili.

Slökkvitæki
Slökkvitæki til heimilisnota henta á mismunandi tegundir elds sem er flokkaður í A, B og C:
A-flokkur: Eldur í föstum efnum, svo sem húsgögnum og innréttingum.
B-flokkur: Eldur í eldfimum vökva.
C-flokkur: Eldur í gasi.
Duftslökkvitæki (A, B, C) eru öflug og mjög áhrifarík á eld í föstum efnum, olíu og gasi og henta því mjög vel á heimilum og í bílinn. Einnig er mælt með þeim í sumarhús án kyndingar því duftið þolir mikið frost. Á Norðurlöndum er í vaxandi mæli mælt með 6 kg duftslökkvitækjum fyrir heimili. Helsti gallinn við duftslökkvitæki er að duftið dreifist víða.
Léttvatnstæki (A, B) eru einnig góð slökkvitæki. Þau henta þó ekki á gas.
Sjálfvirkan slökkvibúnað er hægt að setja í raftæki, svo sem sjónvarpstæki.

Notkun slökkvitækja
Leiðbeiningar um notkun eiga að vera á tækinu. Kynnið ykkur þær. Slökkva má minniháttar eld með handslökkvitæki og er efninu þá beint að rótum eldsins. Þegar slökkvitæki er beint að eldi í rafmagnstæki ber að standa í að minnsta kosti 1 m fjarlægð frá tækinu. Ávallt skal þó leggja áherslu á:
1. Að setja ykkur sjálf eða aðra aldrei í hættu.
2. Að hringja ávallt í 112 og óska eftir aðstoð slökkviliðs.
3. Að börn komi sér út en reyni ekki að slökkva eld.
Ef ekki er unnt að slökkva eld er brýnt að yfirgefa rýmið og loka því ef hægt er.

Staðsetning slökkvitækja
Slökkvitæki á að festa á vegg með tilheyrandi búnaði þannig að þægilegt sé að taka það af veggnum til notkunar. Handfangið er þá í 80-90 sm hæð frá gólfi. Setja á tækin við flóttaleið og sem næst útgöngum. Slökkvitæki eru öryggistæki. Þau eiga því að vera sýnileg og aðgengileg þegar gengið er um íbúðina svo að allir viti hvar þau eru ef nauðsynlegt reynist að nota þau.

Endurnýjun og viðhald
Slökkvitæki hafa takmarkaðan líftíma og þau þarf að yfirfara reglulega. Upplýsingar um viðhald og endurnýjun eiga að vera á tækinu. Leitið einnig upplýsinga um viðhald og endurnýjun hjá seljendum.

Eldvarnateppi
Talsverð eldhætta fylgir notkun olíu og feiti í eldhúsum. Hafið því eldvarnateppi í eldhúsinu. Ef eldur kviknar í olíu eða potti er nauðsynlegt að bregðast rétt við:
• Skvettið alls ekki vatni á eldinn. Það veldur sprengingu.
• Reynið ekki að fara út með logandi pott/pönnu.
• Leggið eldvarnateppi eða pottlok yfir logandi pott/pönnu og þéttið að uns eldurinn hefur slokknað. Verjið hendur gegn hitanum eins og kostur er.
• Slökkvið undir hellunni ef þið getið. Sé eldavélin með sléttu helluborði má færa pottinn/pönnuna varlega af hellunni.

Eldvarnateppi ber að staðsetja á sýnilegum og aðgengilegum stað í eldhúsi. Þó ekki svo nærri eldavél að erfitt verði að ná til þess ef eldur logar í potti eða pönnu.

Rafmagn og rafmagnstæki
Rekja má um helming eldsvoða á heimilum til rafmagns og rafmagnstækja. Í megindráttum þarf að huga að tvennu hvað varðar rafmagn og notkun þess; annars vegar rafkerfinu sjálfu en hins vegar rafmagnstækjum og notkun þeirra.

Rafkerfið
Leiki minnsti vafi á að rafkerfið sé í lagi ber að fá löggiltan rafverktaka til að kanna málið og jafnvel gera úttekt á rafkerfinu. Fúsk getur reynst dýrkeypt og valdið miklum skaða.
Rafmagnstaflan er hjarta rafkerfisins í hverju húsi. Öryggin í töflunni eiga að varna því að of mikið álag eða skammhlaup valdi tjóni. Í eldri töflum eru bræðivör sem skipta þarf um þegar þau springa. Í nýrri töflum eru varrofar sem slá út við bilun eða of mikið álag. Gamlar og illa farnar rafmagnstöflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða staðsettar í skápum þar sem nóg er um eldsmat. Í slíkum tilvikum er brýnt að láta löggiltan rafverktaka kanna ástand töflunnar og gera úrbætur. Í rafmagnstöflum eiga að vera skýrar merkingar sem sýna meðal annars hvaða öryggi eru fyrir hvern húshluta og hve sterk þau eru.
Lekastraumsrofinn er eitt helsta öryggistæki rafkerfisins. Verði útleiðsla í raflögn, til dæmis vegna bilunar í jarðtengdu tæki, á rofinn að slá út og rjúfa allan straum. Lekastraumsrofinn kemur ekki að tilætluðum notum nema raflögnin sé jarðtengd.
Innstungur (tenglar) eiga að vera vel festar og rafmagnsklær eiga að sitja tryggilega í þeim því sambandsleysi getur valdið hita. Skiptið strax um brotin lok á innstungum svo að fólk komist ekki í snertingu við rafmagn.
Leiðslur og rafmagnsklær. Varist að tengja mörg orkufrek raftæki í sama fjöltengið og tengja saman fjöltengi. Einnig er varasamt að flytja rafmagn langar leiðir með grönnum framlengingarsnúrum. Mikilvægt er að þessi rafbúnaður sé óskemmdur. Brotnar klær og leiðslur með skemmdri einangrun eru stórhættulegar.

Rafmagnstækin
Rafmagnstæki geta valdið eldsvoða, bæði vegna rangrar notkunar og bilunar eða hrörnunar í búnaði.
Eldavélar. Farið ekki frá meðan á eldamennsku stendur og munið að slökkva á hellum að notkun lokinni. Leggið aldrei eldfim efni ofan á eldavél. Skiptið reglulega um síur í gufugleypum. Í þær safnast fita sem getur valdið miklum eldsvoða ef eldur kemst í hana.
Á markaði eru eldavélavarar sem senda frá sér boð og slökkva á eldavélinni ef óeðlilegur hiti myndast við hana. Þeir sem eru með skert minni vegna elliglapa eða heilaskaða fá 50% kostnaðar við kaup á búnaðinum endurgreiddan frá Sjúkratryggingum Íslands.
Sjónvarpstæki. Rjúfið strauminn að tækinu þegar heimilið er yfirgefið og á nóttunni. Ekki er nóg að slökkva á tækinu með fjarstýringu heldur á að nota rofann á tækinu sjálfu eða rofa á fjöltengi. Tryggið að vel lofti um bakhlið tækisins.
Þvottavélar, þurrkarar og uppþvottavélar. Auk eldhættu er hætta á vatnstjóni af völdum þvottavéla og uppþvottavéla. Hafið þessi tæki því aldrei í gangi þegar þið farið að heiman eða sofið. Hreinsa þarf ló sem safnast í þurrkara.
Ljós. Ef skipta þarf oftar um perur í einu ljósastæði en öðru getur það bent til bilunar. Látið þá löggiltan rafverktaka kanna hvað veldur. Röng stærð eða gerð af peru getur valdið bruna. Hafið ekki brennanleg efni of nálægt ljósum.
Tölvur og símar. Góð regla er að slökkva á tölvum þegar þær eru ekki í notkun og án eftirlits, til dæmis þegar fólk sefur. Hafið fartölvur ekki á mjúku undirlagi, til dæmis í sófa eða rúmi. Þá er hætta á ofhitnun. Farsímar í hleðslu geta ofhitnað og eiga því að vera á traustu undirlagi.
Önnur tæki. Reynslan sýnir að kviknað getur í út frá nánast öllum raftækjum sem notuð eru á heimilum. Slökkvið á þeim þegar þau eru ekki í notkun og látið laga þau eða fargið þeim ef þau sýna merki um bilun eða hrörnun.

Gas

 Búnaður
Þar sem gas er notað innandyra þarf að vera gasskynjari. Hann er festur á sökkul í eldhúsi og í sambærilegri hæð í öðrum rýmum. Gasið er þyngra en andrúmsloft og leitar því niður. Veljið viðurkenndan búnað og fáið fagmann til að koma tækjunum fyrir. Skipta þarf um slöngur á um fimm ára fresti og er þá ráðlegt að láta yfirfara annan búnað. Ýmis búnaður eykur öryggi við notkun á gasi, svo sem búnaður sem lokar fyrir gasstreymi ef slanga gefur sig. Ekki fúska við gas!

Geymsla á gasi
Geyma á gaskúta á vel loftræstum stöðum. Sé gas geymt í lokuðum skáp ber að tryggja loftræstingu bæði ofan til og við botn. Æskilegast er að geyma gaskúta utandyra í læstum og merktum skáp.

Inni í íbúðarhúsum, bílskúrum og sumarhúsum má að hámarki hafa einn 11 kg gaskút. Í geymslum fjölbýlishúsa má geyma 5 kg gaskúta með viðeigandi loftræstingu.
Þar sem gashylki eða búnaður tengdur því er innanhúss er mjög áríðandi að setja gasskynjara við gólf nálægt búnaði og kútum. Gaskútar verða að standa uppréttir á stöðugri undirstöðu.

Í húsbílum og ferðavögnum má hafa tvö 11 kg gashylki, eitt í notkun og annað til vara. Æskilegt er að hafa rými þar sem gaskútar eru í notkun ólæst til þess að utanaðkomandi geti skrúfað fyrir gasið í neyð.

Merking á húsnæði þar sem gas er geymt
Á bensínstöðvum, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, er hægt að fá miða til að merkja húsnæði þar sem gaskútar eru geymdir. Komi upp eldur er mikilvægt að slökkviliðsmenn geti áttað sig á hvort gaskútar eru í húsnæðinu því af þeim getur stafað mikil sprengihætta. Setjið límmiðann við neðstu löm á hurð eða neðarlega í dyrakarm í útidyrum húsnæðis þar sem gaskútur er geymdur. Einnig má setja límmiða á áberandi stað þar sem gaskútur er geymdur, svo sem á geymslur, garðhús, skápa og hólf.

Útigrillið
Fylgist vel með þegar verið er að grilla og bregðist við áður en mikill eldur kemur upp í grillinu. Varist að grilla of nærri timburvegg eða glugga með stórum rúðum. Skrúfið fyrir gaskútinn að notkun lokinni.

Eldur og eldfim efni

Kerti og kertaskreytingar
• Festið kertin tryggilega á eldtrega og stöðuga undirstöðu.
• Hafið þau ekki of nærri hitagjafa, svo sem ofni eða sjónvarpi. Logandi kerti á ekki að standa ofan á raftæki.
• Hafið þau ekki nærri efnum sem auðveldlega getur kviknað í.
• Öruggast er að nota kramarhús, sjálfslökkvandi kerti eða kertaslökkvara í skreytingar. Sé það ekki gert er mikilvægt að láta skraut ekki liggja að kerti, eldverja skreytinguna og slökkva tímanlega á kertunum.
• Farið aldrei frá logandi kerti og látið börn ekki komast í eldfæri eða logandi kerti.

Eldstæði
Sækja þarf um leyfi byggingafulltrúa áður en eldstæði eru sett upp.
• Veljið viðurkenndan búnað, fáið fagmann í uppsetningu og frágang og fylgið leiðbeiningum um notkun.
• Tryggja verður aðstreymi fersks lofts til að stjórna megi brunanum og koma í veg fyrir að súrefnisskortur setji fólk í hættu. Setjið kolsýrlingsskynjara í loft.
• Varist snertingu við heita hluta tækjanna. Mælt er með því að kamínur og rör séu einangruð eins og kostur er.
• Notið öryggis- og neistagrind.
• Hreinsið eða látið hreinsa tækin reglulega. Gott er að miða við að ef tækin eru notuð einu sinni á dag þarf að hreinsa þau einu sinni á ári.
• Slökkvið í glæðum áður en farið er að sofa eða húsnæðið er yfirgefið.
• Ekki brenna hluti sem gefa frá sér heilsuspillandi reyk, svo sem plast- og gúmmíefni.

Etanól-arnar
Í etanól-örnum er etanól brennt í opnum skálum. Veruleg eldhætta getur stafað af notkun þeirra. Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um uppsetningu og notkun.
• Arininn þarf að hengja á eða láta standa á stöðugu og óbrennanlegu undirlagi.
• Fjarlægð að brennanlegu efni má ekki vera minni en 1 m.
• Herbergið má ekki vera minna en 23 m2 en eftir því sem arinninn er stærri og eldsneytismagnið meira þarf stærra rými. Arininn má ekki nota í kjallara og svefnherbergjum.
• Mikilvægt er að loftræsting sé nægjanleg.

Nokkrar ábendingar við notkun etanól-arna:
• Eingöngu má flytja arininn þegar ekkert eldsneyti er í honum.
• Látið ekki loga í arninum án eftirlits fullorðinna.
• Ekki má nota aðra gerð eldsneytis en framleiðandi mælir með. Öll ílát undir eldsneyti eiga að vera með barnalæsingu og geymast á öruggum stað.
• Eingöngu má slökkva í eldsneytinu með þar til gerðum lokunum, þar sem þær eru fyrir hendi. Annars verður að láta eldsneytið brenna upp. Ekki má nota vatn til þess að slökkva eld í etanól-arni.

Reykingar
Mikil eldhætta getur stafað af reykingum innandyra, ekki síst þegar áfengi, fíkniefni eða lyf eru höfð um hönd. Þá getur verið mjög varasamt að fólk með skerta hreyfigetu reyki inni ef það er einsamalt. Reykingar við aðstæður þar sem fólk gæti sofnað út frá þeim, svo sem uppi í rúmi eða sófa, eru stórhættulegar. Mörg dæmi eru um alvarlega eldsvoða og dauðsföll við slíkar aðstæður. Gangið ætíð úr skugga um að ekki leynist glóð í öskubökkum áður en þeir eru losaðir. Vissara er að bleyta í þeim áður. Öruggast er þó að reykja aðeins utandyra.

Sorp
Staðsetjið sorpílát utandyra þannig að eldur frá þeim geti ekki borist í hús gegnum glugga eða dyr.

Eldfim efni
Ýmis eldfim efni eru notuð á heimilum, svo sem gas, bensín, terpentína, viðarolía o.fl. Fjallað er um gas í kafla 5. Geymið bensín og önnur eldfim efni í bílskúr eða útigeymslu. Geymið ekki mikið magn slíkra efna á heimilinu.

Hætta á sjálfsíkveikju
Kviknað getur í viðarolíu í tuskum, svampi eða öðrum áhöldum og er þá gjarna getið um þá hættu á umbúðum. Ekki er hætta á íkveikju í umbúðunum eða á fletinum sem meðhöndlaður hefur verið, aðeins í áhöldum. Bleytið þau með vatni og setjið í dollu með loki eða í plastpoka og bindið fyrir.
Brunahólfun
Tilgangur brunahólfunar er að halda eldi og reyk þar sem eldurinn kom upp og koma í veg fyrir að flóttaleiðir fyllist af reyk. Vönduð brunahólfun getur skipt sköpum um hvernig til tekst með slökkvi- og björgunarstarf.

Tefja útbreiðslu elds og reyks
Brunahólfun er oftast fólgin í veggjum og hæðaskilum sem eru byggð þannig að þau þoli bruna í einn til einn og hálfan tíma. Dyr í þessum veggjum eiga að þola eld í að minnsta kosti 30 mínútur.
Í einbýlishúsum, rað- og parhúsum er hólfun einföld. Milli íbúða á að vera veggur sem þolir eld í 90 mínútur. Sé bílskúr sambyggður húsi skal hann vera sérstakt brunahólf sem á að standast eld í 60 mínútur. Ef innangengt er í bílskúrinn skulu dyrnar þola eld í 30 mínútur, vera reykþéttar og með hurðarpumpu.
Í fjölbýlishúsum skal hver íbúð hólfuð þannig að hún standist eld í 90 mínútur. Dyr að íbúð eiga að þola eld í 30 mínútur, vera reykþéttar og með hurðarpumpu. Þá skulu gangar og stigahús vera brunahólfuð þannig að þau standist eld í 60 mínútur með aðliggjandi dyrum eins og eru að íbúðum.

Ekki rjúfa brunahólf
Mikilvægt er að pumpur séu á öllum brunahólfandi hurðum og að dyrum sé ekki haldið föstum í opinni stöðu. Hætt er við að dyr að geymslugöngum og þvottahúsi standi opnar ef ekki er pumpa á þeim. Reykþéttingar hurða og karma gefa sig með tímanum. Einnig þarf að gæta þess að ekki sé óþétt með lögnum sem fara í gegnum brunahólfandi veggi og gólf. Frá slíku þarf að ganga með sérstökum þéttiefnum.
Eldvarnir í sameign fjölbýlishúsa
Eldvarnir í sameign fjölbýlishúsa eru á ábyrgð húsfélags. Dæmi eru um að slökkvilið bjóði úttekt á eldvörnum í sameign án endurgjalds og er stjórnum húsfélaga bent á að kanna hvort slík þjónusta er í boði hjá viðkomandi slökkviliði.

Stigahús
Klæðningar í lofti og á veggjum eiga að vera úr óbrennanlegum efnum, til dæmis gifsi. Dyr að íbúðum eiga að þola eld í 30 mínútur en dyr á milli sameignar (geymslur og þvottahús) og stigahúss í 60 mínútur. Allar þessar dyr eiga að vera með pumpu og reykþéttingum. Gólfefni eiga að vera tregbrennanleg. Opnanlegir gluggar til reyklosunar eiga að vera á hverri hæð. Í gluggalausum stigahúsum á að vera gluggi eða lúga á efstu hæð sem hægt er að opna frá neðstu hæð. Flóttaleiðir úr stigahúsi eiga að vera opnanlegar innan frá án lykils.

Sorpgeymslur
Loft og veggir eiga að vera úr óbrennanlegum efnum. Dyr eiga að vera læstar og ekki má vera innangengt í sorpgeymslur. Sorprenna skal ná upp úr þaki og vera eldvarin í 60 mínútur alla leið. Sorplúgum á að loka vandlega með óbrennanlegu loki.

Svalir
Svalir eru flóttaleið. Aðgangur að svaladyrum þarf að vera greiður og auðvelt þarf að vera að opna þær. Lokanir á svölum mega ekki hindra flótta úr íbúðinni.

Öryggisbúnaður
Reykskynjarar eiga að vera á öllum hæðum í stigagangi og í geymslugöngum. Best er að skynjarar í geymslugangi og stigahúsi séu samtengdir. Gasskynjari ætti að vera þar sem gas er geymt. Út- og neyðarlýsing ætti að vera í göngum og stigahúsum.

Björgunarsvæði slökkviliðs
Við allmörg fjölbýlishús eru björgunarsvæði samkvæmt kröfu slökkviliðsstjóra. Þau eiga að vera vel merkt og ávallt aðgengileg fyrir björgunartæki slökkviliðs.

Brunatryggingar

Lögboðin brunatrygging
Húseigendum er skylt samkvæmt lögum að vátryggja allar húseignir gegn eldsvoða. Vátryggingarfjárhæð miðast við brunabótamat og bætir vátryggingin allt það sem brunabótamatið tekur til, það er húseignina og alla veggfasta hluti eins og innréttingar, skápa og baðtæki. Brunabótamatið á að standa fyrir endurbyggingarkostnaði húseignarinnar verði altjón á henni. Því er mikilvægt að matið sé skoðað og kallað eftir endurmati hjá Þjóðskrá Íslands, til dæmis vegna endurbóta á húsnæði. Tryggingafélögin bjóða viðskiptavinum sínum upp á viðbótarbrunatryggingu, telji þeir brunabótamatið ekki vera nægjanlegt.

Innbústrygging
Innbústrygging er valfrjáls vátrygging sem bætir tjón sem verður á almennu og sérgreindu innbúi í samræmi við skilmála tryggingafélaganna og gildir á þeim stað sem tilgreindur er í vátryggingaskírteini. Vátryggingarfjárhæð kemur fram á vátryggingarskírteini Mikilvægt er að vátryggingarfjárhæðin standi fyrir öllu innbúinu en algengt er að innbú sé vanmetið. Það kemur berlegast í ljós þegar fólk verður fyrir tjóni og fær það ekki að fullu bætt.

Tjón á skráningarskyldum ökutækjum sem eru í bílskúr eða geymslu húseignar bætist úr kaskótryggingu, sé hún fyrir hendi. Tjaldvagnar, fellihýsi og annað þess háttar teljast ekki hluti af innbúi og því þarf að tryggja það sérstaklega.

Slysavarnafélagið Landsbjörg er aðili að Eldvarnabandalaginu.

  Smellið á eldinn hér til hliðar til að sjá bækling Eldvarnabandalagsins.

Til baka á